Siggi segir

Monday, January 31, 2005

...ég er heimskur, og sjúkur...*

Þvílík leiðindi. (Nú ætla ég aðeins að væla og vorkenna sjálfum mér) Ég er búinn að vera veikur síðan á föstudag. Þetta gengur engan veginn upp. Það er nógu mikið rugl að vera veikur en að þurfa að fórna helgi í það, slíkt tekur engu tali. Ég ætlaði að ná þrennunni um síðustu helgi. Fara þriðju velheppnuðu ferðina í röð til höfuðborgar mannanna en af því varð ekki. Ég lýsi hér með frati á öll veikindi.

En að öðrum og skemmtilegri fréttum. Þar sem að Bubbi Mortens hefur augljóslega tapað glórunni hef ég neyðst til að leita mér að nýrri fyrirmynd í lífinu. Þessi leit hefur borið mig um víðan völl og hef ég ,,mátað" hinar ýmsu fyrirmyndir. Þar á meðal má nefna: Shrek(úr samnefndri teiknimynd) en það gekk ekki upp af augljósum ástæðum. Hagrid(úr Harry Potter) en ég reyndist of lítill til þess. Þar næst mátaði ég David Beckham(knattspyrnugoð) en nei, ég er of stór, of sætur, of lélegur í fótbolta... En svo hitti ég á það... The Rock. Fyrrverandi glímukappi sem vinnur nú fyrir salti í grautinn með því að leika í bíómyndum. Þar er kominn kappi sem vert er að reyna að líkjast. Hávaxinn, herðabreiður og niðurmjór. Vöðvamikill, dökkur á húð og hár. Hann hefur karlmannlegt andlit, svipmót hans lýsir í senn hörku og festu en jafnframt viðkvæmni. Svona ætla ég að verða þegar ég verð orðinn stór.

Kærar kveðjur

Siggi ,,Klettur"

*Nirvana


Tuesday, January 25, 2005

Ég veit hver ég er, vegna þess að ég lagði mig fram um að komast að því.

Skömmu eftir að ég hafði skrönglast á fætur í morgun kveikti ég á sjónvarpinu til að njóta félagsskapar Heimis og Ingu yfir seríosinu. Þetta er svo sem ekki í frásögur færandi þar sem ég gera slíkt hið sama næstum alla morgna. Þegar fréttir voru lesna sá ég renna yfir skjáinn texta sem hljóðaði upp á að eftir 10 ár, ef ég man rétt, gæti Ísland verið orðið óbyggilegt vegna loftslagsbreytinga í heiminum. Ég kæri mig ekki um að hugsa þá hugsun til enda hvað yrði um mig ef satt reynist. Ég veit hver ég er, og veit að það er enginn hætta á að ég þrífist annarsstaðar en á fósturjörðinni. Því bið ég þess vinir mínir að ef til kemur, þá verði mér komið fyrir á háum tindi, þar sem ég get horft út yfir eyjuna mína. Þar vil ég standa uns hold mitt verður að dufti. Ég vil sjá með tárbólgnum augum er land fer í eyði. Með síðasta andvarpi mínu mun ég kalla út yfir hjarnið: ,,Taktu við mér aftur, móðir mín"

Íslandi allt.

Thursday, January 20, 2005

Maðurinn er eina skepnan sem roðnar-

eða hefur ástæðu til þess*
Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart, hvað okkur mönnunum er það einstaklega vel í lófa lagið að flækja hlutina. Mörgum virðist það gersamlega um megn að láta bara vaða, framkvæma og hugsa svo um afleiðingarnar á eftir. Þetta virðist sérstaklega eiga við um samskipti okkar við hitt kynið. (Nú er ég ekki að tala um þetta lið sem ríður öllu sem hreyfist og heldur að það sé að lifa lífinu í botn, heldur fólk sem er að leita eftir eðlilegum samskiptum við aðila af hinu kyninu.) Vinur minn einn, sem ég kýs að nafngreina ekki að svo stöddu er mjög illa haldinn af þessum kvilla. Öll hans saga í kvennamálum er á sömu bókina. Hann hittir stelpu, það hitnar á milli þeirra, hitinn helst sá sami í óratíma, það byrjar að kólna, þau verða vinir da da da.
Þetta er ekki eðlilegt. Svona lagað gengur ekki upp, ef þetta væri reynt úti í náttúrunni færi ekki vel. Tveir apar standa t.a.m. ekki í fjóra, fimm mánuði og glápa á hvern annann, veifandi og gefandi allskonar merki og hætta svo bara við allt saman, kvenapinn fer að reyna við annann karlapa og fyrri karlapinn að spá í það með vinum sínum af hverju aldrei gangi neitt upp hjá honum.
Góðar stunur.



*Mark Twain











Monday, January 17, 2005

,,Þú þarna, þýski hattari!"*

Tilefni þess að ég brest á með skrifum í dag er nokkuð einfalt. Ég hefi ákveðið að lýsa ánægju minni með höfuðborg mannanna.(les. Reykjavík.) Þar virðist vera að finna allt það sem saklaus sveitapiltur(les. ég) þarf á að halda. Eins og glöggir lesendur muna var ég á ferðinni hér fyrir skemmstu að dásama sögusýningu í perlunni og hefur fleira á daga mína drifið.
Ég fór til höfuðborgarinnar síðastliðin laugardag til að láta gamlan draum rætast. Ég lét húðflúra mig og hef þannig skipað mér á stall með helstu töffurum landsins, eins og Bubba, Einari Ágústi og að ógleymdum Magga vini mínum...
Að öllu gamni slepptu þá tel ég þetta hafa verið mjög jákvætt framfaraskref hjá mér. Það er mikilvægt að menn láti drauma sína rætast, séu þeir innan siðsamlegra takmarka. Ef helsti draumur minn hefði verið að raka á mér botninn og búa til þrykkmyndir með honum, þá...
Þá hefði ég sennilega verið löngu búinn að því.
Lifið heil...
*Fjodor Dostojevskí; Glæpur og refsing.

Tuesday, January 04, 2005

1.Hillingar

Kallið mig Ísmael!1

Það brast á með Reykjavíkurför hjá mér í gær. Ég fór með hinum konunum í vinnunni í fræðsluferð í Leikskóla Reykjavíkur. Sú heimsókn skyldi lítið eftir sig (held meira að segja að ég hafi sofnað undir fyrirlestrinum), þannig að ekki er vert að gefa henni frekari gaum. Hins vegar var okkur boðið á sögusýningu í Perlunni. Þar hafa nokkrir undarlega eljusamir einstaklingar komið á fót magnaðri sýningu sem ég kvet alla til að kynna sér. Nenni svo sem ekki að fjölyrða um kvikindið en bendi á að þarna má m.a. sjá berbrjósta konu, dauðan gaur, annann hálfdauðann og einn feitan. Það gerist ekki betra!!! Til þess að kóróna allt saman fær maður svo ferðageislaspilara til afnota þar sem maður getur hlustað á sögulegt ágrip þeirra atriða sem tekin eru fyrir á sýningunni.

1 MOBY DICK


Sunday, January 02, 2005

margt dregur til þess Aþenumenn,

að ég læt það ekki á mér festa, sem hér er orðið, að þér hafið dæmt mig sekan.1
Líkast til væri við hæfi nú í upphafi árs að líta aðeins yfir farinn veg og gaspra síða eitthvað um að líta björtum augum til framtíðar og annað í þeim dúr... þannig að ég held ég láti það alveg ógert.
Hugleiðing: Ef þið fynduð mig í náttúrlegu umhverfi mínu, þar sem ég skýst milli snjóskafla og grásvartra steina sem stinga sér upp úr snjóbreiðunni, og sæjuð nekt mína með berum augum, mynduð þið ennþá virða mig? Eða myndi innrætt siðferðiskennd ykkar þvinga ykkur til að líta undan, hrista hausinn og kúgast? Þið sem nú fallið á hnén frammi fyrir mér og færið allar þær fórnir sem ég fer fram á, þið sem tilbiðjið mig í algerri blindni, myndi nokkurt ykkar líta við mér ef þið vissuð að ég hef ekkert raunverulegt vald? Ég fel mig miskunnsemi ykkar á vald. Fari svo sem fara skal...

1 málsvörn Sókratesar