Siggi segir

Thursday, May 12, 2005

Nútíminn er trunta...

Ég er hinn fullkomni nútímamaður. Ég hef aldrei nokkurn tíman getað tollað í tískunni en núna þegar allt er í tísku og allt er leyfilegt þá er þetta allt að ganga upp hjá mér. Í dag er kúl að vera svona metro maður. Ég sem lít út eins örlagaverkamaður, sérsniðinn í heilalausa erfiðisvinnu, vinn þess í stað á leikskóla. Ég heilsa vinum mínum með kossi á kinn og hrósa þeim fyrir að hafa lagt af. Núna um daginn sagði ég vinnufélaga mínum að ég myndi alveg hugleiða að sofa hjá manninum hennar ef ég væri ekki frátekinn.

Auk þessa hef ég tekið upp á því á efri árum að klæða mig eins og unglingur, spá í útliti mínu og stunda líkamsrækt( að vísu ekki með merkilegum árangri en samt). Ég sem alltaf hef verið svo hrikalega gamaldags er næstum kominn í hring og orðinn að tískuljóni.

Þakka þeim sem hlýddu.

Friday, May 06, 2005

Grr húbba hviss

Vúff hvað það er orðið langt síðan að ég hef skeiðst fram á ritvöllinn. Fjarvera mín frá bloggheimum orsakaðist af búslóðarflutningum og skorti á uppsetningu tölvunnar. Nú er það frá og kominn tími til að tjá sig um eitt og annað. Fyrst ber að nefna skemmsta sumar í manna minnum. Það sumraði vel hér í nokkra daga en þá tók við snjókoma og fimbulkuldi. Undirritaður þjáist af innflúensu, lungnakvefi, sótthita, malaríu og astma. Þetta hefur verið viðvarandi ástand síðan ég fór að mæta næsta nakinn í vinnuna því það er jú komið sumar samkvæmt dagatalinu.

Þessu næst hyggst ég birta lista yfir helstu afrek mín síðan ég bloggaði síðast: 1......?

Það var og, búinn að vera æði rólegur í tíðinni. Ég kýs að telja búslóðaflutninga mína og þá sem ég tók þátt í með systur minni ekki til afreka, þar sem að ég hef flutt svo margar búslóðir að slíkt telst vart til tíðindi lengur. Þá eru ýmis önnur fréttnæm atriði enn á umræðustigi og verður gert opinbert um þau síðar. Ég get þó upplýst það að mér hefur verið boðið að gerast heiðursmeðlimur í breska verkamannaflokknum og er ég að íhuga það núna.

Hilsen Siggi