Siggi segir

Sunday, March 19, 2006

Knattleikur

Ég tók þátt í einkar áhugaverðum knattspyrnuleik í gær. Þessi leikur var hin mesta skemmtun enda um vináttuleik að ræða þannig að leikgleðin var í fyrirrúmi. Leikurinn fór hægt af stað og menn þreifuðu varlega fyrir sér. Fljótlega færðist þó meira fjör í leikinn og fleiri fóru að láta til sín taka. Bæði lið spiluðu ágæta vörn en megin áhersla var þó lögð á sóknarleikinn enda skemmtir fátt áhorfendum eins og glæsileg mörk. Flestir leikmenn áttu góðan dag. Gunnur þurfti reyndar að fara af leikvelli um miðjan fyrri hálfleik, vegna meiðsla. Öddi, Jói, Sandra og Alli áttu fína spretti á miðjunni en eru greinilega ekki alveg komin í leikform. Sjálfur lék ég í hjarta varnarinnar ásamt Kára, Árni og Hjalli komu svo sterkir inn sem bakverðir. Við stóðum vörnina með ágætum en vorum kannski óþarflega værukærir á köflum og áttum það til að gleyma okkur þegar við fórum fram að styðja við sóknarleikinn. Ég vona að minnið svíki mig ekki en mig minnir að markvörðurinn heiti Tinna. Það óskast leiðrétt fari ég með rangt mál. Hún fór á kostum í markinu en skorti þó sjálfstraust á til að byrja með. Konni og Ingibjörg léku svo allann leikinn í sókninni. Skemmst er frá því að segja að þau áttu bæði stórleik, voru vinnusöm og ógnandi allann leikinn, unnu vel hvort fyrir annað og skorðu drjúgt. Var það mál manna að Konni hefði verið maður leiksins en hann skoraði stórglæsilegt mark með hjólhestaspyrnu rétt fyrir utan vítateig.

Wednesday, March 08, 2006

Vinur minn...

Þú vinur minn villti
sem vaknar ei meir.
Þitt er allt sem lifir
og allt sem deyr.

Í faðmi fjallanna
finn ég þig.
Þar felurðu óttann, eilífðina
ástina og mig.

Í örmum þínu athvarf
er ógnir fara á stjá
Þú ert angistin í sálinni
og allt sem ég á.

Þú lifir í ljóðum mínum
lífs míns stærsta synd.
Alltaf er ég sé þig,
augu mín reynast blind.

Þú býrð í brjósti mínu
ert barnatrúin mín.
Í erfiðleikum ósjálfrátt
alltaf ég leita þín.

Áfram hyggst ég halda
og horfa fram á veg.
En aldrei verðum við aðskildir
vinur þú og ég.

Tarmangani

Ég hefi látið skerða hár mitt. Eftir að hafa verið með hár niður á axlir í mörg herrans ár hefi ég látið klippa mig stutt. Nú er ég borgarlegur til höfuðsins. Þetta er hin undarlegasta aðstaða að vera í. Ég veit varla hvernig ég á að haga mér. En maður verður að breyta til öðru hvoru, ég er allt of ungur til að festast í viðjum vanans.