Sunday, April 03, 2005

Eins dauði er annars brauð

Þegar kristur lést varð líkami hans að brauði sem fermingabörn sporðrenna ótt og títt um þessar mundir. Ég fór í fermingarveislu hjá frænda mínum í dag, mæli ekki sérstaklega með þessum veisluhöldum. Það er hávaði og læti, virðulegar húsmæður fara yfir um af stressi, og til að kóróna alla vitleysuna sér ekki vín á nokkrum manni. Það hlýtur að vera skárra að vera fullur við þessar kringumstæður, einkum og sér í lagi ef maður er sjálfur að fermast. Öll fermingarbörn á blindafyllerí, það er mín stefna í þessum málum.
Annars er þetta orðinn hálfgerður farsi. Í gamla daga þegar ég fermdist var maður litinn hornauga fyrir að viðurkenna þá einföldu staðreynd að allt væri þetta gert gjafanna vegna. Jafnaldrar mínir kepptust við að belgja sig út af trúarhita og sama má segja um foreldra, kennara og vitaskuld klerkana. Í dag er unglingum klappað á bakið fyrir að sýna þetta mikla viðskiptavit. Einn ungur maður sem ég þekki tók svo djúpt í árinni að segjast ætla að láta ferma sig að ári vegna þess að hann fengi hvergi annarsstaðar jafn hátt tímakaup.
Eru ekki kirkjan og trúin orðin hálfgerður dragbítur á fermingum? Maður spyr sig.
Spurning um að færa fermingaraldurinn upp í 17, þá gætu allir fengið bíl í fermingargjöf.

1 Comments:

Blogger Ólöf María said...

góður pistil hjá þér Siggi.

Sveinn

Monday, 02 May, 2005  

Post a Comment

<< Home