Tuesday, August 15, 2006

Með sódómsku yfirbragði

Mér finnst alltaf hálf hallærislegt þegar ,,upp kemur í þjóðfélaginu mikil umræða um samkynhneigð". Það vekur jafnvel hjá mér ofurlitla kátínu að nú á þessari miklu upplýsingaöld skuli menn enn vera að velta sér svona upp úr líferni annarra. Þegar styrjaldir geysa, ofbeldi er daglegt brauð meðal fólks (jafnvel gagnkynhneigðra) og margt fleira eru ákveðnir aðilar sem virðast halda að helst ógn sem að okkur steðjar sé fjölgun samkynhneigðra.
Eins og flestum ætti að vera kunnugt birtist nú á dögunum auglýsing í morgunblaðinu þar sem boðaðar voru leiðir til að losna úr viðjum samkynhneigðar. Skömmu síðar heyrði ég viðtal við einhvern guðfræðing þar sem hann þuldi upp allskyns tölfræði til stuðnings þess að slík meðferð bæri árangur. Bandarískar rannsóknir sýndu svo ekki væri um villst að hægt væri að ,,lækna" samkynhneigða. Næstum 30% árangur hefði náðst.
Hér er mín skýring á því. Nú er ég karlmaður. Segjum sem svo að allt mitt líf væri mér kennt að það væri rangt að vera karlmaður. Það væri fordæmt af samfélagi mínu og trúarbrögðum. Svo væri mér boðin meðferð eftir að allir væru búnir að vinna í því allt mitt líf að sannfæra mig um að eitthvað væri að mér. Líklega myndi ég fara í meðferðina með opnum hug og koma út dillandi mjöðmum og slúðrandi um vinkonur mínar...
Sjálfur hef ég ákveðna fordóma gagnvart heittrúuðum. Þó held ég að ekki sé rétt að bjóða þeim sem trúa statt og stöðugt á Guð og Jesú, einhverja meðferð. Jafnvel þó ég sé algerlega sannfærður um að trúarbrögð hafi kallað meiri hörmungar yfir heiminn en samkynhneigð.

Hýr en trúlaus
Siggi

0 Comments:

Post a Comment

<< Home